Meistarar í indverskri matargerð

image description
image description

Biju George

Biju George er fæddur og uppalinn í hlýrri hafgolu á strandlengju Kerala, sunnanverðu Indlandi. Fylkið er oft kallað Kryddgarður Indlands og er svæðið þekkt fyrir helstu kryddakra og mörg fremstu veitingahús Indlands. Frá unga aldri lærði Biju kúnstina að blanda kryddum eftir ævafornum hefðum Ayurveda, þar sem bragð og heilsa eru höfð að leiðarljósi. 

Frá 2013 hefur Biju nýtt þessa kunnáttu í eldhúsi Hraðlestarinnar og skapað fjölmarga rétti sem gestir Hraðlestarinnar þekkja og elska. Þar að auki sér Biju um að kryddblöndur Hraðlestarinnar séu ávallt ferskar, bragðmiklar og í fullkomnu jafnvægi.

UPPÁHALDS RÉTTUR:
Madras

Prakash Singh

Prakash Singh er frá hæðum Himalaya fjallanna í Uttaranchal á norður Indlandi. Hann sérhæfir sig í Tandoori matreiðslu og ríkulegum réttum norðursins. Í garði æskuheimils Prakash stóð Tandoori ofn þar sem hann lærði hina fornu list af afa sínum.

Seinna meir varði Prakash mörgum árum í Delhi og síðar á suður Indlandi þar sem hann eldaði rétti norðursins á ýmsum 5-stjörnu hótelum. Prakash byrjaði að framreiða rétti að hætti afa síns á Hraðlestinni árið 2007 og er hann helsti sérfræðingur okkar í kjötréttum.

UPPÁHALDS RÉTTUR:
Tandoori kjúklingur

Lakshman Rao

Lakshman Rao fæddist í Maharashtra-fylki og hefur gegnt ýmsum stöðum á mörgum frægustu veitingahúsum Indlands. Lakshman hefur ferðast vítt og breitt um landið til að læra matarlist hinna ýmsu héraða Indlands. Á starfsferli sínum hefur hann framreitt mat fyrir meðlimi bresku konungsfjölskyldunnar, þjóðarleiðtoga og matarunnendur hvaðanæva að.

Lakshman Rao flutti til Íslands í janúar 1995 og vann fyrst í eldhúsi Austur-Indíafjelagsins. Átta árum síðar var dótturfyrirtækið Hraðlestin stofnað og varð Lakshman yfirkokkur þess. Hann hefur stýrt eldhúsi Hraðlestarinnar allar götur síðan.

UPPÁHALDS RÉTTUR:
Kjúklingur „65“

Madaiah Kalaiah

Madaiah Kalaiah er fæddur og uppalinn í Hassan, Suður-Indlandi. Ástríða Madaiah fyrir mat kviknaði á unga aldri. Fyrst lærði hann matargerð smáþorpa suðursins. Síðar stundaði hann nám við virtan matreiðsluskóla þar sem hann fullkomnaði sína tæknilegu færni. Madaiah lauk þjálfun sinni í Hassan undir leiðsögn yfirkokks Hraðlestarinnar, Lakshman Rao.

Madaiah kom til Íslands haustið 1995, rétt á eftir Lakshman og eldaði við hlið hans á Austur-Indíafjelaginu. Madaiah gefur réttum Hraðlestarinnar heiðarlegt bragð úr indverskum smáþorpum og sérhæfir sig í grænmetisréttum.

UPPÁHALDS RÉTTUR:
Grænmetis Makhani