SKS-skólinn í Coorg á Suður-Indlandi var stofnaður árið 2002 að frumkvæði fjölskyldu stofnenda Hraðlestarinnar. Um 400 nemendur úr nærliggjandi þorpum og sveitum sækja skólann, sem hafa ekki þann kost að sækja nám annars staðar. Skólinn er fjármagnaður með frjálsum framlögum velunnara.

Fjármunum, sem safnað hefur verið til þessa, hefur verið varið í framkvæmdir við skólabyggingu, kennslubækur, skólabúninga, máltíðir og skólarútur sem koma nemendum leiðar sinnar úr allt að 30 kílómetra fjarlægð.

Nemendur SKS eru á aldrinum 5-17 ára. Allir nemendur fá skólabúninga, bækur og máltíðir á hverjum degi. Í skólanum læra þau meðal annars stærðfræði, ensku, Hindi, líffræði og tölvunarfræði. Skólinn leggur ríka áherslu á rökræður, íþróttir og þátttöku í hinum ýmsu keppnum milli skóla, en þar hefur skólinn átt góðu gengi að fagna. Kennarar skólans eru allir háskólamenntaðir og einkunnir nemenda á samræmdum prófum eru yfir meðallagi.

Á síðustu árum tókst að safna nægum fjármunum til að stórbæta tölvuaðstöðu og opna bókasafn í skólanum. Í kjölfar Covid-19 faraldursins hjálpuðu fjárframlög til við að halda grunnrekstri skólans gangandi. Nýverið hafa fjárframlög einkum verið nýtt til að efla aðstöðu skólans til verklegs náms í vísindafögum og í viðhald á skólalóð eftir erfið síðustu monsúntímabil. 

Ef þú vilt styrkja þetta verðuga málefni, þá er það hægt á öllum veitingastöðum okkar og hér beint fyrir neðan.

Takk fyrir þinn stuðning.

 

STYRKJA SKS

Þitt framlag skiptir máli

Föst upphæð af hverri seldri vöru

Hraðlestin hóf framleiðslu og sölu á tilbúnum matvörum síðla árs 2019. Frá upphafi var SKS barnaskólanum eyrnamerkt föst upphæð af ágóða hverrar seldrar vöru, ýmist 50 eða 100 krónur. Vörulínan hefur borið árangur í kynningu á málefnum SKS, en á umbúðum varanna má finna myndir og upplýsingar um skólann.

Á haustmánuðum 2023 afhenti Chandrika Gunnarson, stofnandi og framkvæmdastjóri Hraðlestarinnar, skólanum 20 milljóna króna styrk, sem var að stóru leyti ágóði af sölu matvara Hraðlestarinnar í verslunum.