• 2003

    Hverfisgata

    Á vordögum ársins 2003 opnaði Hraðlestin dyrnar í fyrsta sinn í litlu timburhúsi að Hverfisgötu 64a. Þar hafa dyrnar staðið opnar fyrir gestum síðan. Staðsetningin var og er í kallfæri frá Austur-Indíafjelaginu, veitingahúsinu sem kalla má eldri systur Hraðlestarinnar. Stofnendur Austur-Indíafjelagsins, hjónin Chandrika og Gunnar Gunnarsson, stóðu að baki nýja veitingahúsinu ásamt rekstrarstjóranum Miroslav ‘Bato’ Manojlovic. 

    Í fyrstu var Hraðlestinni – þá Austurlandahraðlestinni – ætlað að verða eins konar ,,take away“ útgáfa af Austur-Indíafjelaginu og létta á álaginu sem var á síðarnefnda veitingahúsinu. Hraðlestin hefur síðan skapað sitt eigið orðspor og verið leiðandi í indverskum ,,take away“ mat á Íslandi. 

  • 2006

    Hlíðasmári

    Vinsældir Hraðlestarinnar leiddu til þess að fljótlega varð að finna húsnæði fyrir næsta veitingahús. Hraðlestin opnaði í Hlíðasmára, Kópavogi árið 2006 og eignaðist þar tryggan hóp viðskiptavina.

  • 2008

    Spöngin

    Útrás Hraðlestarinnar í úthverfi Höfuðborgarsvæðisins hélt áfram eftir góðar móttökur í Kópavogi. Næsti áfangastaður Hraðlestarinnar var Spöngin í Grafarvogi, en handan við hornið var heimskreppa, sem átti eftir að setja svip sinn á næstu rekstrarár.

  • 2013

    Lækjargata

    Stærsta veitingahús Hraðlestarinnar opnaði eftir miklar framkvæmdir á hinu merka tveggja hæða húsi við Lækjargötu 8. Í Lækjargötu tókst að skapa ekta indverska stemningu með sérinnfluttum húsgögnum, innréttingum og borðbúnaði frá Indlandi. 

    Eins konar kaflaskil urðu í Lækjargötu, en þar byrjaði Hraðlestin að leggja aukna áherslu á indverskan götumat eins og naan vefjur og nýjungar á borð við indverskar pizzur og masala franskar.

  • 2013

    Kringlan

    Næst lá leið Hraðlestarinnar í Kringluna. Ákveðið var að færa reksturinn í Grafarvogi yfir í Kringluna, þegar tækifæri gafst. Hraðlestin þjónaði viðskiptavinum Kringlunnar í sjö ár, þangað til reksturinn var færður yfir á næsta stað í sama hverfi, Grensásveg 3.

  • 2019

    Vörur frá Hraðlestinni

    Fyrstu vörur Hraðlestarinnar litu dagsins ljós árið 2019. Fyrsta varan var Spicy Pickle, sterkkryddaðar súrkrásir. Spicy Pickle var og er dálæti starfsfólks Hraðlestarinnar og því lá beinast við að bjóða viðskiptavinum þessa bragðaukandi viðbót. Í kjölfarið voru aðrar krukkuvörur kynntar, nýjungin Tomato Kasundi og Mango Chutney Hraðlestarinnar. Allar þessar vörur fóru í búðir, auk þriggja vefja, sem höfðu löngu skapað sér góðan orðstír; Tikka, Tandoori og Kurma.

  • 2020

    Grensásvegur

    Á fyrsta sumardegi ársins 2020 opnaði Hraðlestin veitingahús við Grensásveg 3. Á Grensásvegi voru þrír hlutar rekstursins færðir undir sama þak – veitingahús, framleiðslueldhús og skrifstofa. Veitingahúsið færði umsvif Hraðlestarinnar ögn austar, sem gerði íbúum þess hluta borgarinnar kleift að ganga í hóp tryggra viðskiptavina. Nýja framleiðslueldhúsið var sérstaklega útbúið til að styðja vöxt vöruframleiðslu Hraðlestarinnar.

  • 2020

    Nýjar vörur, fleiri búðir

    Fimm nýjar vörur komu í búðir á haustmánuðum 2020. Naan-brauð og hvítlaukssmjör og þrjár sósur: Korma, Makhani og Vindaloo. Sölustöðum fjölgaði hratt með vaxandi árangri vörulínunnar. Þær fást nú í flestum verslunum Krónunnar á höfuðborgarsvæðinu, Selfossi, Akranesi og Reykjanesbæ, Melabúðinni, völdum N1 stöðvum og á Landspítalanum.

  • 2022

    Endurbætur á Hverfisgötu

    Ráðist var í endurbætur á upprunalegu Hraðlestinni, Hverfisgötu 64a, í byrjun árs 2022. Eldhúsið var stækkað og aðkoman bætt fyrir gesti. Rekstri í Lækjargötu lauk seinna um árið eftir níu farsæl ár og tók Hverfisgatan við sem aðalstaður Hraðlestarinnar í miðborginni.

  • 2023

    Grandi

    Þann 5. apríl 2023 opnaði Hraðlestin nýtt veitingahús í gömlu verbúðunum við Grandagarð.

  • Í dag

    Hraðlestarfjölskyldan

    Hraðlestin hefur vaxið og þróast frá stofnun, en stendur enn fyrir sömu gildi. Hraðlestin hefur frá upphafi lagt höfuðáherslu á að bjóða viðskiptavinum sínum gott aðgengi að því fremsta í indverskri matargerð og nota til þess aðeins fyrsta flokks, ferskt hráefni. Þrátt fyrir tvær heimskreppur og stór breyttar aðstæður, stendur Hraðlestin enn við þessi loforð og mun gera áfram. 

    Hraðlestin er fjölskyldufyrirtæki, í beinum og óbeinum skilningi. Framkvæmdastjóri Hraðlestarinnar er Chandrika. Eiginmaður hennar og meðstofnandi, Gunnar, féll frá árið 2017 og ári síðar lést Bato, hinn meðstofnandi Hraðlestarinnar. Chandrika tók við keflinu eftir fráfall Bato, en hún stýrir Hraðlestinni með aðstoð barna sinna, Jóhönnu Preethi og Ísarrs Nikulásar. ,,Hraðlestarfjölskyldan“ er þó víðtækara hugtak, því hjá Hraðlestinni starfar fjölbreyttur hópur með mikla reynslu. Þessi trausti hópur er bakland fyrirtækisins. Tveir starfsmenn, matreiðslumeistararnir Lakshman og Madaiah, hafa verið frá upphafi, en margir aðrir hafa starfað hjá fyrirtækinu um árabil og vaxið innan fyrirtækisins.